Lífið

Borðstofan í uppáhaldi

Íris Eggertsdóttir, hönnuður, kann afskaplega vel við sig í borðstofunni sinni. "Uppáhaldsstaðurinn minn á heimilinu mínu er borðstofan okkar sem er eldhús líka og í raun hefur okkur tekist að gera nokkurskonar alrými úr henni. Hér sitjum við og lesum, borðum, spjöllum og skemmtum gestum og gerum allt sem við þurfum að gera. Ég er myndlistarmaður og hönnuður með og þarna sit ég og fletti blöðum og skoða í tölvuna, spjalla við fólk og vinn hugmyndavinnuna. Svo er framkvæmdin í næsta herbergi. Ég hanna boli, armbönd, pils, skyrtur og ýmislegt annað en er samt fyrst og fremst myndlistarmaður. Mér finnst hugmyndavinnan samt alltaf skemmtilegust. Ég er að vinna að sýningu núna sem verður sett upp bráðlega og hef tvö af verkunum mínum beint fyrir framan mig þar sem ég sit hérna í horninu mínu." En hvað er það besta við borðstofuhornið? "Það sem ég er ánægðust með er að ég sé beint út um gluggann út á sjó. Mér finnst hafið svo stórkostlegt og útsýnið hjálpar mér að tæma hugann svo ég geti opnað fyrir sköpunargáfuna. Ég læt hafið hreinsa til í höfðinu á mér og búa til pláss handa nýjum hugmyndum. Ég vinn mikið í textíl og endurvinn gömul efni og þar sem ég sé líka út á Hverfisgötu úr horninu mínu er það kannski hún sem kallar fram í mér áhugann á þeim. Hverfisgatan er svo skemmtilega retró," segir Íris og er hæstánægð með gluggann sinn. [email protected]





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.