Lífið

Útbjuggu leigubíl utan um hjólastól sonarins

Bjarki Ármannsson skrifar
Ragnar í nýja búningnum nú í morgun.
Ragnar í nýja búningnum nú í morgun. Mynd/Hallgrímur Guðmundsson

Öskudagur er upp runninn og keppnin um flottasta búninginn um leið hafin. Hallgrímur Guðmundsson, véltæknifræðingur í Hafnarfirði, lætur ekki sitt eftir liggja en hann útbjó frá grunni stórskemmtilegan leigubílabúning fyrir Ragnar son sinn.

„Við bjuggum þetta bara til úr gömlum IKEA-pappakassa,“ segir Hallgrímur. „Hann er í hjólastól og við ákváðum bara að búa til „taxa“ úr gömlum hjólastól, sem hann gæti svo bara rennt sér í. Þetta tók tvær kvöldstundir.“

Ragnar, sem verður átta ára á árinu, fékk ekki að sjá „bílinn“ sinn fyrr en hann vaknaði í morgun. Hallgrímur segir þó að son sinn hafi ef til vill grunað hvað var í vændum.

Leigubíllinn í allri sinni dýrð áður en bílstjórinn fór í bílinn í morgun.

„Hann fékk ekkert að fylgjast með þessu,“ segir hann. „En ég býst nú við að hann hafi eitthvað verið að gjóa augunum á þetta. Hann er búinn að sjá svona að hluta til hvað við vorum að gera.“

Að sögn Hallgríms er þetta í fyrsta sinn sem ráðist er í svona metnaðarfulla búningagerð á öskudeginum á þeirra heimili. Ragnar fer í nýja búningnum sínum í skólann og seinna í dag fær hann svo að fara í sælgætisleit með systkinum sínum tveimur.

„Það er einn Hómer, einn „minion“ og svo einn Taxi. Þannig að það er gult þema hjá okkur,“ segir Hallgrímur og hlær.

Veistu af fleiri flottum búningum í tilefni dagsins? Láttu okkur vita og sendu okkur myndir á [email protected]. Gleðilegan öskudag!






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.