Fótbolti

Hareide segir að þjálfaraferlinum sé lokið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Åge Hareide sést hér í síðasta leiknum sínum þegar Ísland tapaði á móti Wales i Þjóðadeildinni.
Åge Hareide sést hér í síðasta leiknum sínum þegar Ísland tapaði á móti Wales i Þjóðadeildinni. Getty/James Gill

Åge Hareide hætti með íslenska karlalandsliðið í fótbolta í gær og hefur jafnframt gefið það út að þjálfaraferli hans sé nú formlega lokið.

Hinn 71 árs gamli Hareide lýsti þessu yfir í hlaðvarpsþættinum „Bakrommet“ sem er þáttur á vegum norska ríkisútvarpsins. NRK sagði frá þessu á fréttasíðu sinni áður en þátturinn fór í loftið.

„Ég hef ákveðið þetta. Það er kominn tími hjá mér að hætta. Ég er með slæmt hné. Ég verð að vera í toppformi ætli ég mér að sinna þessu,“ sagði Åge Hareide í hlaðvarpsþættinum.

Frétt NRK um Åge Hareide og að hann sé hættur þjálfun.NRK

Hareide var spurður af því hvernig tilfinning það væri að þjálfaraferlinum sé nú lokið.

„Ég hugsa ekki mikið um það,“ sagði Hareide en verður hann ekki að hugsa um það núna?

„Nei, ég veit það ekki. Ég hef ekki byrjað að hugsa um þetta ennþá. Mér líkar þetta ekki en svona er þetta bara. Það er vitjunartími á allt,“ sagði Hareide.

Ståle Solbakken, þjálfari norska fótboltalandsliðsins, þekkir vel Hareide og hafði rætt við hann áður en ákvörðunin var gerð opinber. Þetta kom honum því ekki á óvart.

„Ég ræddi við Åge fyrir síðasta landsliðsglugga. Þar talaði hann um að þetta yrði raunin svo þetta kemur mér ekki á óvart,“ sagði Solbakken við NRK.

„Hann er mikill meistari í endurkomum svo það er nú ekki alveg öruggt að við sjáum hann ekki aftur,“ sagði Solbakken.

Solbakken hrósar Hareide líka fyrir framlag hans til norska fótboltans sem hann telur afar mikilvægt og lítur hann á Hareide sem brautryðjanda meðal norskra þjálfara bæði heima í Noregi sem og erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×