Enski boltinn

Hélt hreinu á móti Manchester City ökklabrotinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guglielmo Vicario fagnar sigri á Manchester City en finnur greinilega mikið til í ökklanum á sama tíma.
Guglielmo Vicario fagnar sigri á Manchester City en finnur greinilega mikið til í ökklanum á sama tíma. Getty/Simon Stacpoole

Guglielmo Vicario, markvörður Tottenham, spilar ekki fótbolta á næstunni eftir að hafa lagst á skurðarborðið í gær.

Í ljós kom að Vicario ökklabrotnaði í 4-0 sigrinum á Englandsmeisturum Manchester City um helgina.

Tottenham tilkynnti það á miðlum sínum í gærkvöldi að leikmaðurinn hafi farið í gærdag í aðgerð á hægri ökkla.

Þeir sem horfðu á leikinn tóku greinilega eftir því að Vicario meiddist í fyrri hálfleiknum eftir samstuð við leikmann City.

Hann harkaði af sér og kláraði leikinn. Það er sem meira er að hann hélt marki sínu hreinu þrátt fyrir að vera ökklabrotinn. Vicario varði alls fimm skot í leiknum.

Tottenham segir að félagið fylgi nú læknaliði félagsins í einu og öllu þegar kemur að ákveða um framhaldið hjá markverðinum. Félagið segist líka ætla að veita leikmanninum allan þann stuðning sem hann þarf á að halda.

Það er aftur á móti ljóst að Vicario verður lengi frá.

Varamarkvörður Tottenham á móti City var hinn 36 ára gamli Fraser Forster. Hann spilaði síðast deildarleik með Spurs tímabilið 2022-23 en hefur staðið í markinu í einstaka bikarleikjum og Evrópuleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×