Fótbolti

Laumaði haus­kúpu afa síns inn á úr­slita­leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmaður Racing Club kyssir hér höfuðkúpu afa síns en hana tekur hann með sér á alla leiki.
Stuðningsmaður Racing Club kyssir hér höfuðkúpu afa síns en hana tekur hann með sér á alla leiki. Getty/Marcelo Endelli/

Stuðningsmaður fótboltafélags frá Argentínu er orðinn frægur á netinu eftir að upp komst um hvað hann gerði á úrslitaleiknum í Suðurameríkukeppni félagsliða.

Lið hans Racing Club de Avellaneda komst í úrslitaleikinn þar sem liðið mætti Cruzeiro frá Brasilíu.

Afi hans var einnig mikill stuðningsmaður Racing og varð vitni af því þegar Racing varð síðast Suðurameríkumeistari félagsliða. Það var árið 1967 en nú náði félagið loksins að endurtaka leikinn meira en fimmtíu árum síðar.

Barnabarnið minntist afa síns með mjög sérstökum hætti nú þegar titilinn var loksins í augsýn á nýjan leik.

Hann tekur hauskúpu afa síns með sér á alla leiki Racing og höfuðkúpan var með honum á þessum úrslitaleik. Leikurinn fór fram í Asunción í Paragvæ og maðurinn þurfti því að ferðast langt með höfuðkúpuna.

Myndband af stuðningsmanninum fór á flug á netinu en þar var hann spurður af því af hverju hann væri með þessa hauskúpu með í för.

„Þetta er hann afi minn, Valentín Aguilera,“ sagði maðurinn og hélt uppi hauskúpunni.

Var hann stuðningsmaður Racing? „Í lífi jafnt sem dauða,“ svaraði afabarnið. En af hverju að taka hauskúpuna með á leikinn? „Af því að ég elskaði hann og ég elska Racing.“

Hvernig komst hann í gegnum öryggisleitina spyrja eflaust sumir. „Ég komst í gegnum hana á trúnni og ást minni á Racing,“ svaraði stuðningsmaðurinn en það má sjá viðtalið með því að fletta hér fyrir neðan.

Racing vann úrslitaleikinn 3-1 eftir að hafa komist í 2-0 á fyrstu tuttugu mínútunum. Mörkin skoruðu þeir Gastón Martirena, Adrián Martínez og Roger Martínez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×