Skoðun

Hveiti­poki á fjöru­tíu þúsund

Katrín Harðardóttir skrifar

Kæru samborgarar.

Ég er ekki í framboði. Þessa grein má lesa sem eins konar skilaboð til ykkar sem hryllir yfir því sem er að gerast í Palestínu og finnið til samkenndar með fólkinu sem bókstaflega berst fyrir lífi sínu á hverjum degi. Ég er nokkuð viss um að einnig megi nota orðin vanmáttur og reiði yfir tilfinningarnar sem bullsjóða vegna þess sem hefur staðið yfir í alltof langan tíma.

Staðan er núna sú að sama og engin hjálpargögn berast inn á Gaza. Hernámið hefur í yfir tíu mánuði séð til þess að hjálparstofnanir komist ekki inn á svæðið, og það sem þó kemst inn er stolið eða sprengt upp, eins og má lesa um í þessum greinum frá Le Monde og CBSNews. Þar kemur einnig fram að hernámsliðið standi hjá og leyfi ræningjunum að fara sínu fram. Samkvæmt fólki á svæðinu eru það þessi hjálpargögn sem eru seld á uppsprengdu verði, til dæmis hveitipoki á 40 þúsund krónur.

Mig langar til þess að benda ykkur á hóp á Facebook sem heitir Safnanir og styrkir fyrir fólk frá Palestínu. Hann var stofnaður til að hjálpa fjölskyldum sem hafa misst allt í átökunum og lifa við skelfilegar aðstæður, þar sem hungur og skortur á grunnþörfum ógna lífi þeirra. Í hópnum má finna tengla á söfnunarreikninga sem veita þessum fjölskyldum lífsnauðsynlegan stuðning. Reikningarnir eru líflína fjölskyldna sem búa nú við þá staðreynd að það er kerfisbundið verið að svelta þau í hel. Þessar fjölskyldur eru svo heppnar að eiga hauk í horni í öðru landi þar sem hægt er að opna söfnunarreikning, sem enn er hægt að taka út af. Þar komum við inn í málið. Það er ósköp einfalt að leggja inn á síðurnar. Það eina sem þarf er netsamband og bankareikningur.

Að taka þátt er einfalt: með netsambandi og bankareikningi getur hver sem er lagt inn og hjálpað. Markmið hópsins er að nýta tengsl og netið til að koma neyðaraðstoð beint til þeirra sem þurfa mest á henni að halda.

Nú biðla ég til ykkar um að leggja á vogarskálarnar. Hryllingurinn heldur áfram og mun líklega gera það í einhvern tíma. En við getum auðveldað líf þessara fjölskyldna, barnanna sem búa við stöðugt sprengjuregn, við hungurmörk. Þess vegna bið ég ykkur um að fara inn á hópinn, líka við hann og finna nokkrar safnanir, eða bara það sem þið ráðið við, og styrkja sem um nemur nokkrum jólagjöfum.

Höfundur er þýðandi. 




Skoðun

Sjá meira


×