Skoðun

Hvernig metum við listir og menningu?

Andri Björn Róbertsson skrifar

Í umræðu um listir og menningu í aðdraganda alþingiskosninga hefur mikil áhersla verið lögð á efnahagslegt gildi. Þar hefur komið fram að beint framlag menningar og skapandi greina nemi um 3,5% af landsframleiðslu, litlu minna en framlag sjávarútvegs. Einnig hefur verið bent á að hver króna sem hið opinbera fjárfestir í menningu og skapandi greinum verði að þremur krónum í hagkerfinu. Að lokum hefur verið nefnt á að skatttekjur hins opinbera af menningu og skapandi greinum séu 17 milljörðum hærri en framlag ríkisins til þessara málaflokka.

Þessi umræða hefur verið góð að mörgu leyti í samfélagi sem hefur þörf fyrir að setja allt í mælanlegar stærðir.

En hvernig metum við list? Hvernig metum við þau áhrif sem list hefur á samfélagið allt? Þetta ósnertanlega, þessi líðan, tilfinning, áhrif. Er nóg að líta á hversu margar bækur rithöfundur hefur skrifað, hversu margar nótur söngvari hefur sungið og hve mörg spor dansari hefur dansað?

Mat á list er afstætt, persónulegt og óendanlegt og því fráleitt að horfa einungis á magn og tölur, þó vissulega skipti þær upplýsingar líka máli. Hver og einn getur haft skoðun á listinni og tilgangi hennar. Sumir segjast jafnvel bara ekkert þurfa á list að halda, sem er skoðun út af fyrir sig.

Jákvæð áhrif lista og menningar á andlega og félagslega líðan, þroska barna og ungmenna og stöðu okkar sem þjóð á meðal þjóða, eru öllum kunn. Nóg hefur verið skrifað um það, þó oft sé vöntun á hlustun.

Á endanum snýst þetta um vilja þjóðfélags og stjórnmála. Viljum við list? Viljum við ríka og breiða menningu? Viljum við fegurð? Viljum við beitta þjóðfélagsrýni? Viljum við fjölbreytt atvinnulíf með sterkum skapandi greinum? Ég segi já.

Afstaða sumra stjórnmálaflokka fyrir kosningarnar er óljós eða lýsir afskiptaleysi og skilningsleysi á stöðu lista og menningar. Stuðningur annarra stjórnmálaflokka við listir og menningu er skýr, þar sem ástríða við viðfangsefninu er augljós.

Hver er þín afstaða?

Mín afstaða er skýr: Kjósum með menningu og listum.

Höfundur er óperusögnvari.




Skoðun

Sjá meira


×