Handbolti

Spiluðu deildina hundrað þúsund sinnum og reiknuðu sigur­líkur liðanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blær Hinriksson og félagar í Aftureldingu eru líklegri til að verða Íslandsmeistarar en að verða deildarmeistarar samkvæmt útreikningum HB Statz.
Blær Hinriksson og félagar í Aftureldingu eru líklegri til að verða Íslandsmeistarar en að verða deildarmeistarar samkvæmt útreikningum HB Statz. Vísir/Diego

Seinni umferð Olís deildar karla í handbolta fer af stað í kvöld en öll liðin hafa mæst á þessari leiktíð. Það þótti góður tímapunktur til að reikna út sigurlíkur liðanna í framhaldinu.

Tölfræðingarnir á HB Statz hafa notað tölfræði sína til að reikna út líkurnar á því hvaða lið fagni deildarmestaratitlinum í vor.

Það er mikil spenna í deildinni, FH og Afturelding eru jöfn á toppnum með sautján stig og Valsmenn eru síðan aðeins einu stigi á eftir. 

FH er líklegra en Afturelding til að verða deildarmeistari samkvæmt fyrrnefndum útreikningi. 48,9 prósent líkur eru á því að FH vinni deildina en sigurlíkur Mosfellinga eru 30,5 prósent.

HB Statz spilaði restina af mótinu hundrað þúsund sinnum til að reikna úr líkurnar. Það þýddi að í öllum þessum keyrslum voru 8,9 milljón leikja „spilaðir“.

FH og Afturelding eru aftur á móti með svipaðar líkur á því að verða Íslandsmeistarar eða 24,1 prósent hjá FH og 22,4 prósent hjá Aftureldingu. Það eru 18,5 prósent líkur á því að Valur verði Íslandsmeistari í vor.

Í einni keyrslu af hundrað þúsund þá náðu Stjörnumenn að vinna deildina en Stjarnan er nú í sjöunda sætinu sjö stigum frá toppsætinu.

Í tíu keyrslum af hundrað þúsund þá komust ÍR-ingar í úrslitakeppnina. ÍR situr í neðsta sæti deildarinnar eftir fyrri umferðina.

Í tveimur keyrslum þá endaði þetta mjög illa fyrir Eyjamenn og þeir féllu úr deildinni. ÍBV er í sjötta sætinu í dag.

Mesta baráttan um sæti í úrslitakeppninni virðist vera á milli Gróttu, KA og HK.

Hér fyrir neðan má sjá sigurlíkurnar nú þegar seinni umferðin fer af stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×